Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 835  —  388. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    
Fjárlaganefnd hefur nú farið yfir svokallað Icesave-mál í þriðja sinn. Fyrsta afgreiðsla nefndarinnar og Alþingis sumarið 2009 endaði með höfnun breskra og hollenskra stjórnvalda á málinu. Önnur afgreiðsla fjárlaganefndar og Alþingis í desember 2009 endaði með synjun forseta Íslands á staðfestingu laganna og fyrstu almennu þjóðaratkvæðagreiðslunni hér á landi á lýðveldistímanum. Í þeirri atkvæðagreiðslu greiddu yfir 93% kjósenda atkvæði gegn málinu.
    Að ósk breskra og hollenskra stjórnvalda var fjármálaráðherra eindregið hvattur til þess að vinna málið áfram í góðu samráði við þá flokka á þingi sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn. Sameiginleg samninganefnd leiddi svo málið til lykta að mestu leyti á haustdögum 2010 og til varð frumvarp til laga (þskj. 546 – 388. mál).
    Samningsdrögin sem undirrituð voru af hálfu samninganefndarinnar eru óumdeilanlega miklu mun hagfelldari fyrir Ísland en áðurnefndir tveir fyrri samningar sem gerðir voru og framganga samninganefndarinnar fyrir Íslands hönd hefur verið til fyrirmyndar. Því ber þó að halda til haga að aðalsamningamaðurinn fyrir Íslands hönd og einn mesti sérfræðingur heims á þessu sviði, Lee C. Buchheit, hefur haldið því fram opinberlega að Íslendingar ættu ekki að borga Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Hann hafi hins vegar verið ráðinn til að ná samningum og það hafi hann gert.
    Álit þeirra lögmanna sem sent hafa inn umsagnir um málið eru ekki einhliða og telja má nokkuð víst að sú fullyrðing að Ísland sé ekki lagalega skuldbundið til að greiða Icesave sé rétt, enda er skýrt kveðið á um það í löggjöf Evrópusambandsins að það eigi ekki að vera ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.
    Vel rökstutt álit Peters Örebech, prófessors við Háskólann í Tromsö í Noregi ætti að vera grundvallargagn í þessu máli þar sem hann hafnar því að Íslendingum beri að greiða þessa skuld. Eins og Peter Örebech segir orðrétt: „Hann (Icesave-samningurinn) ýtir undir þá tilhneigingu að veita bönkum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða færð sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra félli.“
    Þess má geta að Icesave-krafan hljóðar upp á 674 milljarða kr. miðað við kröfulýsingardag í apríl 2009. Sú fjárhæð nemur 45% af vergri landsframleiðslu þess árs og 44% af áætlaðri VLF ársins 2010. Það er alveg óhætt að fullyrða að ekki nokkurt ríki í heiminum mundi takast á hendur slíka skuldbindingu vegna falls banka, að ekki sé talað um banka sem voru líklega reknir í glæpsamlegum tilgangi. Vilji og framganga þeirra ríkisstjórna Íslands sem hafa komið að þessu máli hingað til er því með öllu óskiljanleg út frá sjónarmiðum almannahagsmuna og skýrt dæmi um stöðu yfirvalds sem einhverra hluta vegna telur sig yfir það hafið að gæta hagsmuna almennings.

Markmið Hreyfingarinnar í Icesave.
    
Markmið Hreyfingarinnar í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað var að Icesave- skuld þrotabús Landsbankans yrði ekki velt yfir á íslenska skattgreiðendur eingöngu, heldur yrðu eignir þrotabúsins sú greiðsla sem kæmi í hlut breska innstæðutryggingasjóðsins og hollenska seðlabankans sem áður höfðu greitt innstæðutryggingar vegna Icesave-reikningana. Ef eitthvað stæði út af að loknu uppgjöri þrotabúsins mundi sú fjárhæð skiptast til jafns á bresk, hollensk og íslensk stjórnvöld. Þetta markmið náðist ekki og niðurstaðan er að ríkissjóður Íslands ábyrgist allar greiðslur. Í samræmi við það markmið að almenningi yrði ekki gert að axla þessa greiðslubyrði lagði Hreyfingin til í fjárlaganefnd að málið yrði sent til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með ósk um að leitað yrði leiða til að fjármálafyrirtæki landsins tækju á sig þessar greiðslur.
    Rökin fyrir því eru að með því yrði komið inn ákveðinni hugmyndafræði um samábyrgð samtaka í atvinnurekstri, í þessu tilfelli Samtaka fjármálafyrirtækja, sem leiðir til þess að heilar starfsgreinar hafi hvata til þess að halda í heiðri skynsamlegt verklag. Hér yrði einnig um ákveðna sáttaleið að ræða en það voru einmitt fjármálafyrirtæki sem báru meginábyrgð á bankahruninu og þótt núverandi fjármálafyrirtæki beri þar ekki öll sök þá bera engu að síður margir núverandi eigendur þeirra og starfsmenn beint eða óbeint ábyrgð á því hvernig fór. Með því að axla þessa byrði mundu fjármálafyrirtæki leggja fram sinn skerf til þeirra sátta sem nauðsynlega þarf að ná í samfélaginu vegna afleiðinga hrunsins. Fjárhæðirnar sem um er að ræða, ef tekið er mið af áætlunum samninganefndarinnar, eru heldur ekki hærri en svo að fyrirtæki í þessum geira munar lítið um þær greiðslur þar sem þær dreifast á allnokkur ár. Tilmælin til efnahags- og skattanefndar voru að svonefndur „bankaskattur“ (sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010) yrði hækkaður til að ná utan um greiðslur vegna Icesave, en gjaldið nemur nú 0,045% af heildarskuldum fjármálafyrirtækis og er samkvæmt því ætlað að skila um 1 milljarði kr. á ári. Tilmælin til viðskiptanefndar voru að frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (þskj. 268 – 237. mál) yrði breytt með þeim hætti að hluti greiðslna sem ætlaður er í nýstofnaðan innstæðutryggingarsjóð renni í stað þess í eldri tryggingarsjóðinn og verði sá sjóður notaður til að greiða Icesave-skuldina. Innstæðutryggingarsjóðir eru í eðli sínu samtryggingarsjóðir þar sem öll fjármálafyrirtæki greiða í sameiginlegan sjóð sem tryggir innstæður sparifjáreigenda ef eitt (eða fleiri) fyrirtæki í greininni fara í þrot. Það væri því ekkert óeðlilegt við það að framtíðargreiðslur í slíkan sjóð fari til þess að greiða upp eldri skuld sjóðsins ef ekki hefur verið í honum nægilegt fjármagn á þeim tímapunkti sem þurfti.
    Í báðum tilfellum var lagt til að um tímabundna ráðstöfun yrði að ræða sem félli niður þegar Icesave-skuldin yrði upp greidd.
    Fjárlaganefnd samþykkti að senda áðurgreindum nefndum þessi tilmæli en meiri hlutinn ákvað svo að bíða ekki eftir áliti þeirra og tók málið út úr nefndinni og til 2. umræðu í andstöðu við fulltrúa Hreyfingarinnar og Framsóknarflokks og í hróplegu ósamræmi við það samkomulag sem formenn þingflokka höfðu undirritað um meðferð málsins 16. desember 2010.

Umsagnir.
    Afdrif málsins í efnahags- og skattanefnd voru þau að nefndin fjallaði ekki efnislega um málið heldur var boðað til aukafundar í nefndinni með skömmum fyrirvara og nefndarálit meiri hlutans kynnt. Það álit er vægast sagt mjög einkennilegt og ber keim af mikilli vanþekkingu á málinu öllu sem og einföldum atriðum eins og meðferð skatttekna ríkissjóðs og er slíkt eftirtektarvert þar sem að hér er um að ræða efnahags- og skattanefnd Alþingis. Nefndin gerir enga tilraun til að meta kostnað fjármálastofnana af hækkun bankaskattsins með tilliti til hagnaðar þeirra frá hruni heldur segir nefndin að „sú tekjuöflunarleið ríkissjóðs geti orðið viðskiptavinum bankanna til tjóns ef hún leiddi til hækkunar á þjónustugjöldum. Með hliðsjón af erfiðri skuldastöðu heimila og fyrirtækja er því ástæða til að fara varlega í hækkun skattsins.“ Hafa ber er í huga að hagnaður stóru bankanna þriggja árið 2009 var um 51 milljarður kr. og fyrir árið 2010 með beinum framreikningi fyrstu þriggja ársfjórðunga ársins um 47 milljarðar kr. fyrir allt árið. Þetta er fimmföld sú fjárhæð árlega sem tillaga Hreyfingarinnar hljóðaði upp á að yrði notuð til að greiða í Icesave-hítina.
    Efnahags- og skattanefnd kemur einnig með þá furðulegu staðhæfingu að vegna þess að almennt hafi dregið úr sérmerkingum skatttekna til sérstakra útgjaldaliða væri með einhverjum hætti verið að fara illa með það umboð sem Alþingi hefur til skattlagningar. Staðreyndin er hins vegar sú að allt er morandi í sérmerktum skatttekjum ríkissjóðs. Einnig vísar nefndin til þess að skattar á fjármálafyrirtæki verði hér eftir sem hingað til lagðir á frá einu ári til annars og háðir þingvilja hverju sinni. Það er því eins og meiri hluti efnahags- og skattanefndar hafi hreint enga hugmynd um skattastefnu ríkisstjórnarinnar og þær áætlanir sem þar eru uppi um að greiða niður skuldir ríkissjóðs á næstu árum, þrátt fyrir að hafa sjálf afgreitt slíka skatta. Álit þetta er því sögulegt plagg sem mun verða geymt til minningar um vinnubrögð þess Alþingis sem mistókst að reisa Ísland úr hruninu og verður minnisvarði þess hvers vegna svo fór.
    Álit meiri hluta viðskiptanefndar er að einhverju leyti sama marki brennt þar sem fyrsta staðhæfingin um hvers vegna eigi ekki að nota innstæðutryggingarsjóðsfyrirkomulagið til að greiða Icesave er í þá veru að starfandi fjármálafyrirtæki eigi ekki hlut að máli hvað varðar starfsemi hins fallna Landsbanka. Það á almenningur í landinu náttúrlega ekki heldur og kannski enn síður þar sem núverandi eigendur a.m.k. tveggja af þremur stóru bönkunum eru í eigu þeirra sem spiluðu með í braskinu og fjöldinn allur af sama starfsfólkinu og vann þar fyrir hrun og tók líka þátt í braskinu er þar enn við störf. Það kom skýrt fram í framsögu meiri hlutans að ekki yrði unnt að búa til trúverðugt innstæðutryggingarkerfi á Íslandi vegna smæðar efnahagskerfisins og hlutfallslegrar stærðar stóru bankanna þriggja.
    Einnig er athyglisvert að stuðst er við mat Fjármálaeftirlitsins sem telur að hækkun á bankaskattinum muni leiða af sér aukinn vaxtamun hjá fjármálafyrirtækjum. Þetta þýðir að Fjármálaeftirlitið telur að það sé til einhvers konar lágmarkshagnaður fjármálafyrirtækja á samkeppnismarkaði, eins konar fasti sem mun ekki breytast, nema þá væntanlega upp á við. Gott hefði verið að fá að vita hvaðan Fjármálaeftirlitinu kemur slík speki því þetta er fáheyrt og gengur þvert gegn öllum venjulegum kenningum hagfræðinnar. Einnig hefði verið gott að fá að vita hvers vegna það ágætlega menntaða fólk sem er í meiri hluta viðskiptanefndar tekur undir þessa staðhæfingu. Til þess var hins vegar enginn tími enda átti að afgreiða málið út úr fjárlaganefnd samdægurs.
    Meiri hluti viðskiptanefndar telur hins vegar að ef farin verði sú leið að starfandi fjármálafyrirtæki greiði Icesave-kröfurnar þá sé þó betra að framkvæma það með skattlagningu. Þetta er mjög athyglisvert vegna þess að tveir nefndarmanna sem skrifa undir álitið, Magnús Orri Schram og Valgerður Bjarnadóttir, skrifuðu líka undir álit efnahags- og skattanefndar þar sem skattlagningaleiðinni var í raun hafnað.
    Eins og fram kemur í áliti annars af minni hlutum viðskiptanefndar (Margrétar Tryggvadóttur og Eyglóar Harðardóttur) þá var samanlagður hagnaður stóru bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka Íslands fyrir árið 2009 og fyrstu níu mánuði ársins 2010 samtals 86 milljarðar kr. Það er áttföld sú fjárhæð sem hækkun svokallaðs bankaskatts hefði samkvæmt tillögu Hreyfingarinnar kostað á hverju ári og þess ber að geta að hér er um að ræða hagnað í hagkerfi sem enn er lamað eftir stórkostlegt hrun efnahagslífsins. Slíkur hagnaður verður að ofsagróða með sama áframhaldi þegar fram líða stundir og alls ekki hægt að sjá fyrir sér að fjármálafyrirtæki muni finna fyrir neinum eymslum vegna greiðslu á Icesave.
    Í álitinu kemur einnig fram að rannsókn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á innstæðutryggingarsjóðum ESB-ríkjanna leiddi í ljós að eignir innstæðutryggingarsjóða dugðu að meðaltali aðeins fyrir um 0,7% af innstæðum. Áætlanir fyrir svokallað „Stórt áfall“ (e. High impact) á fjármálakerfið þýða að innstæðutryggingarsjóðir þurfi að greiða sem svarar til 3,24% af innstæðunum. Hér á Íslandi lentu hins vegar um 85% innstæðna í uppnámi. Í umfjölluninni kom skýrt í ljós að trúverðugt innstæðutryggingakerfi á Íslandi verði í raun aldrei að veruleika vegna innbyrðis stærðarhlutfalla þriggja stóru bankanna annars vegar og annarra fjármálastofnana hins vegar. Þetta er rétt, ekki síst þegar haft er í huga að stóru bankarnir þrír eru einnig með fjárfestingarbankastarfsemi undir sama hatti og innstæður sem þýðir einfaldlega að innstæðurnar munu alltaf lúta lögmálum spilavíta.
    Það er því vandséð hvers vegna fjárlaganefnd velur ekki þá leið að láta hluta þess eina prósents af innstæðum sem eiga að renna í gagnslausan innstæðutryggingarsjóð renna í staðinn til greiðslu Icesave og reyna með því með mjög einföldum hætti að stuðla að sátt í samfélaginu og stöðva þá ósvinnu að almenningur í landinu verði með beinum hætti látinn greiða skuldir einkafyrirtækis. Fyrirtækis sem ýmislegt bendir til að hafi að auki verið rekið í glæpsamlegum tilgangi.
    Meðferð meiri hluta fjárlaganefndar á áliti beggja minni hluta viðskiptanefndar var einnig mjög ámælisverð og hreinlega móðgun við fólkið sem flutti álitin og áfellisdómur um meðferð þingmála, en minni hlutarnir fluttu álit sín þegar meiri hluti fjárlaganefndar var þegar búinn að ákveða á fundi þá um morguninn að taka málið út úr nefndinni síðar sama dag. Vinnulag fjárlaganefndar, sem 1. minni hluti hefur oft líkt við leikrit, hefur því haldið áfram í Icesave-málinu allt til loka þess í nefndinni.
    Efnahags- og viðskiptaráðuneytið nefnir í minnisblaði sínu að megintilgangur frumvarps um innstæðutryggingarsjóði sé að byggja upp trúverðugt innstæðutryggingakerfi hér á landi. Í minnisblaðinu er einnig vísað til þessa að stóru bankarnir þrír séu kerfislega mjög mikilvægir. Þegar haft er í huga að áðurnefndir þrír bankar eru ekki eingöngu viðskiptabankar og því mikilvægir sem slíkir, heldur einnig fjárfestingarbankar og því þar að auki eðlis síns vegna mjög áhættusöm fyrirtæki, er erfitt að sjá annað en þversögn í þessari tilraun Íslendinga til að byggja upp fjármálakerfið að nýju, tilraun sem ýmislegt bendir í raun til að hafi nú þegar mistekist.
    Seðlabanki Íslands skilaði inn drögum að mjög merkilegri skýrslu, „Hvað skuldar þjóðin“, sem gerir mjög heiðarlega tilraun til að meta skuldastöðu þjóðarbúsins í ljósi þeirra óvissuþátta sem enn eru uppi vegna hruns efnahagskerfisins. Þar sem skýrslan er enn trúnaðarmál er ekki hægt að rekja einstök atriði hennar hér að öðru leyti en að upplýsingarnar eru nánast ætíð settar fram sem hlutföll af VLF og mjög erfitt er að hendar reiður á því hvenær á að inna hvaða greiðslur af hendi og hvernig á að fjármagna þær. Skýrslan, sem er 42 blaðsíður að lengd og mikil náma mikilvægra upplýsinga, fékkst hins vegar ekki rædd efnislega í fjárlaganefnd og ekki er lengur hægt að leggja mat á innihaldið með tilliti til Icesave þar sem nefndin hefur hafnað frekari umfjöllun um málið. Umfjöllunin hér á eftir er því að mestu byggð á eldri skýrslum Seðlabankans og ríkissjóðs sem ekki eru gerð skil í áðurnefndum drögum.
    Við fyrstu sýn virðast skuldaþolsútreikningar Seðlabankans fyrir ríkissjóð hvorki taka til allra skulda hins opinbera, þ.e. undanskilja skuldir sveitarfélaga sem munu í auknum mæli lenda á ríkissjóði, né gera þeir ráð fyrir að ríkisábyrgðir sem nú nema yfir 1.300 milljörðum kr. muni að einhverju leyti falla á ríkissjóð. Það gerðist hins vegar í lok sl. árs að ríkisábyrgðir að fjárhæð 55 milljarðar kr. fóru inn í fjáraukalög ársins 2010 vegna fallinna eða nær fallinna ríkisábyrgða (Lánasjóður Landbúnaðarins og Íbúðalánasjóður) og framundan er stórfelld aukning í ríkisábyrgðum vegna áframhaldandi uppbyggingar fjármálakerfisins. Þar er um að ræða útgjöld upp á 26 milljarða kr. vegna VBS, 12 milljarða kr. vegna Sjóvár, 20 milljarða kr. vegna Saga Capital, 6 milljarða kr. vegna Aska Capital, 5 milljarða kr. vegna Byrs, 14 milljarða kr. vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða kr. vegna Byggðastofnunar. Alls gerir þetta um 87 milljarða kr. án beinna heimilda en óljósar tilvísanir í neyðarlögin eru notaðar. Þess má geta að Ríkisábyrgðasjóður, sem átti að standa undir áföllum vegna fallinna ríkisábyrgða og er í vörslu Seðlabankans, er tómur. Ríkissjóður hefur að auki gengist í ábyrgð fyrir a.m.k. 141 milljarði kr. vegna yfirtöku Arion Banka og Íslandsbanka á þrotabúum SPRON/Dróma annars vegar og Straums/Burðaráss hins vegar. Auk þess hefur fjármálaráðherra gefið út þá yfirlýsingu að allar innstæður í bönkum og fjármálastofnunum séu með ríkisábyrgð án þess að Alþingi hafi samþykkt lög þess efnis.
    Spár Seðlabankans um skuldir sem hlutfall af VLF gera einnig ráð fyrir framtíðaraukningu landsframleiðslu sem að svo stöddu og í nánustu framtíð virðast ekki raunhæfar þar sem aukning VLF sem átti að koma úr virkjanaframkvæmdum og álútflutningi munu ekki ganga eftir og sú aukning VLF sem á að koma með aukinni einkaneyslu er ólíkleg vegna slæmrar skuldastöðu heimilanna. Eins og fram hefur komið verður sú skuldastaða ekki leiðrétt sem neinu nemur af hálfu stjórnvalda.
    Hvað varðar afléttingu gjaldeyrishafta virðist Seðlabankinn ekki gera ráð fyrir að það fylgi því neinn kostnaður að verja gengi krónunnar, en við afléttingu gjaldeyrishafta má gera ráð fyrir stórfelldu útstreymi gjaldeyris.
    Við aukið gjaldeyrisútstreymi í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta er líklegt að gengi krónunnar falli enn frekar. Gengi krónunnar verður eingöngu varið með því að eyða þeim lánum og lánalínum sem til staðar eru sem þýðir gríðarlega aukningu í skuldsetningu þjóðarbúsins og stórfellda aukningu á erlendum skuldum. Slíkri aukningu á skuldum verður að mæta með skattahækkunum og/eða frekari niðurskurði sem við núverandi skuldastöðu heimila leiðir að öllum líkindum til mikils samdráttar í einkaneyslu og þar með VLF. Fall á gengi krónunnar mun einnig stórlega auka skuldir heimilanna vegna þeirra verðbólgu- og verðtryggingaráhrifa sem slík þróun hefur. Bankinn gerir heldur enga tilraun til að meta áhrif af slíku útstreymi gjaldeyris en skuldaaukningin sem fylgir því að verja krónuna mun líklega leiða til þess að þanþol ríkissjóðs og þjóðarbúsins vegna skuldsetningar brestur.
    Nýja skýrslan sem áður var vísað til, þ.e. drögin, reynir að gera grein fyrir stöðu þjóðarbúsins í umhverfi sem er enn mjög óljóst og vegna þeirrar óvissu grípur Seðlabankinn til nýrra vinnubragða og orðalags sem ekki hefur verið notað áður við mat á greiðsluhæfi ríkja, svo sem að undanskilja ákveðnar risastórar skuldir að gefnum ákveðnum forsendum og hugtakið „dulinn viðskiptajöfnuður“ er notað óspart um eitthvað sem gæti hugsanlega verið. Vegna hinna nýju vinnubragða og orðanotkunar er skýrslan að langmestu leyti óhæf til samanburðar milli landa og því erfitt að átta sig á hver staða Íslands sé í alþjóðlegum samanburði eða hvort hún er að batna eða versna. Skuldirnar eru hins vegar gríðarlegar og ekki er gerð tilraun til að greina frá því hvernig eigi að greiða þær til baka nema með mjög óljósu fræðilegu orðalagi á stöku stað.
    Við slíkar aðstæður verður að meta það að Seðlabankinn gerir þó góða tilraun til að meta stöðu þjóðarbúsins en það hefði þó átt að vera algert grundvallaratriði hjá fjárlaganefnd að gefa nefndarmönnum færi á að rýna skýrsluna, bera hana undir aðra og að ekki sé talað um að ræða hana efnislega á fundi áður en málið var tekið út úr nefndinni.

Verklag fjárlaganefndar og Alþingis.
    Það verklag sem hófst í fjárlaganefnd með einhliða riftun meiri hlutans á samkomulagi forseta Alþingis og formanna þingflokka, sem undirritað var 16. desember, hélt áfram fram á loksprettinn. Álit efnahags- og skattanefndar var ekki tekið fyrir efnislega og farið var með álit minni hluta viðskiptanefndar eins og hvern annan óþarfa eins og áður sagði. Sú mikla skýrsla sem Seðlabankinn lagði fram um skuldastöðu þjóðarinnar fékk heldur ekki neina efnislega umfjöllun í nefndinni. Vinna við málið í fjárlaganefnd hefur því verið á forsendum meiri hlutans sem hafnaði ekki aðeins samvinnu um málið heldur rauf undirritað samkomulag um málsmeðferðina. Það er dapurlegt að hugsa til þess að sjálft löggjafarvald þjóðarinnar skuli ástunda slík vinnubrögð og vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega stöðu þess. Fúsk við lagasetningu er að því er virðist einnig að verða helsta einkennismerki ríkisstjórnarflokkanna sem, nú með fulltingi Sjálfstæðisflokks, halda að þeir hafi rétt fyrir sér af því einu að þeir eru svo miklu fleiri.

Niðurstaða.
    Ekki hafa komið fram sannfærandi rök í meðferð fjárlaganefndar í þessari umferð í þá veru að frumvarp fjármálaráðherra sem skuldbindur ríkissjóð til greiðslu innstæðna á Icesave-reikningunum sé annað en hið mesta feigðarflan og, enn sem komið er, er GAMMA með ítarlegustu greininguna á þeim áhættuþáttum sem skipta almenning mestu máli. GAMMA metur mjög ítarlega alla áhættuþætti og niðurstaða þeirra er að heildarkostnaður vegna Icesave III geti verið á bilinu 26 milljarðar kr. til 233 milljarðar kr. Í fyrra tilfellinu er miðað við að aukinn forgangur fáist í útgreiðslur úr þrotabúinu (svokallað Ragnars H. Hall ákvæði) og að gengi krónunnar styrkist um 2% ársfjórðungslega út greiðslutímann. Miðað við óbreytt gengi krónunnar er athyglisvert að sjá að það eru endurheimtur úr búinu og tafir á útgreiðslum sem skipta miklu máli en 10% lakari endurheimtur og níu mánaða töf á útgreiðslum leiða til heildarkostnaðar upp á 145 milljarða kr. Ekki má teljast ólíklegt að endurheimtur úr búinu verði lakari en gert er ráð fyrir og ekki er heldur ólíklegt að tafir vegna dómsmála seinki útgreiðslum. Í sviðsmynd GAMMA, þar sem gert er ráð fyrir 10% lakari endurheimtum úr búinu, níu mánaða seinkun á fyrstu útgreiðslum og 1% veikingu krónunnar ársfjórðungslega, fer heildarskuldin í 182 milljarða kr. og miðað við 2% lækkun krónu ársfjórðungslega fer heildarskuldin í 233 milljarða kr. Þessar tvær síðustu sviðsmyndir eru alls ekki ólíklegar og gera það að verkum að ekki er hægt að samþykkja þennan samning án frekari fyrirvara.
    Gengi krónunnar er mikilli óvissu háð þar sem samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS gerir ráð fyrir afléttingu gjaldeyrishafta og Seðlabankinn hefur lýst því yfir að gjaldeyrishöftum verði aflétt á þessu ári. Sú staðhæfing Seðlabankans að aflétting gjaldeyrishafta muni ekki leiða til fjármagnsflótta og falls krónunnar er ekki vel rökstudd. Hvað svo sem verður um afdrif þessa frumvarps í þingsal væri það mikið ógæfuskref að aflétta gjaldeyrishöftum við þessar kringumstæður.
    Þar sem um er að ræða opinn tékka á greiðslur til Breta og Hollendinga frá íslenskum almenningi, greiðslur sem eingöngu verða greiddar með aukinni skattheimtu eða frekari niðurskurði í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum, telur 1. minni hluti það alveg einboðið að þjóðin sjálf fái að ákveða hvort farið verður í þessa vegferð. Breytingartillögu Hreyfingarinnar um að lögin tækju gildi að afloknu samþykki meiri hluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu var hins vegar hafnað af fulltrúum Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar og ekki studd af fulltrúm Sjálfstæðisflokks.
    Hreyfingin mun því gera aðra tilraun til að vísa málinu til þjóðarinnar til ákvörðunar, þar sem það á heima, með breytingartillögu við frumvarpið við 3. umræðu.

Alþingi, 14. febr. 2011.



Þór Saari.